Ferð til Grænlands

Haustið 2002 nánar tiltekið þann 9. september fór SN í tónleikaferð til Grænlands. Þessi ferð Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands var liður í verkefni á vegum Akureyrarbæjar undir yfirskriftinni Vest-Norden 2002. Verkefnið átti að styrkja tengsl og efla samvinnu milli nágrannalandanna Íslands, Grænlands og Færeyja á ýmsum sviðum menningar, lista og atvinnulífs. Auk Akureyrarbæjar styrktu verkefnið Nordisk Kulturfond, Menntamálaráðuneytið og Nuuk kommune. Frumkvöðull og aðal skipuleggjandi að þessari ferð var Reynir Adolfsson. Það var þó lengi vel tvísýnt hvort af þessari ferð yrði því ekki hafði tekist að fá nægjanlegt fjármagn. Óvænt og á síðast sprettinum barst ein milljón króna frá velviljuðum aðila sem ekki vildi láta sín getið. Sá peningur skipti sköpum varðandi þessa ferð og á fundi stjórnar SN þann 7. ágúst 2002 var ákvörðun varðandi ferðina staðfest. Tónleikar voru haldnir í Katuaq, Grönlands Kulturhus. Efnisskráin var unnin í samstarfi við Grænlendinga, frumflutt var verk eftir grænlenskt tónskáld Per Rosing og grænlenskir kórar sungu með hljómsveitinni. Einleikari á fiðlu var dönsk stúlka búsett í Grænlandi, Hanne Qvist.