Sinfóníuhljómsveit Norðurlands (SN) er ekki skipuð fastráðnum hljóðfæraleikurum, í hljómsveitina er verkefnaráðið fyrir hverja tónleika. Þó hefur komið til tals að fastráða lítinn hóp sem myndað gæti kjarna hljómsveitarinnar, sinfóníettu. Sumarið 1999 voru af hálfu SN gerðar tillögur að samningi milli SN og Akureyrarbæjar þar sem gert var ráð fyrir fastráðningu allt að þrettán hljóðfæraleikara í 40% starf. Var þarna um að ræða samtals rúmlega 5 stöðugildi. Á bak við hvert 40% starf var ætlast til að hljóðfæraleikari léki sautján tónleika á ári auk skólatónleika. Skiptingin væri fimm hljómsveitartónleikar, tólf kammertónleikar og 20 skólatónleikar. Þessar hugmyndir náðu þó ekki fram að ganga, það skortir fjármagn. Hugmyndin er vissulega þess virði að taka fram á ný og skoða því fastur kjarni í hljómsveitinni getur opnað fyrir ýmsa nýja möguleika og gefið hljóðfæraleikurum tækifæri til að spila meira saman. Á hinn bóginn fengju aðeins þrettán hljóðfæraleikarar þessi reglulegu tækifæri. Kosturinn við að verkefnaráða fyrir hverja tónleika er m.a. sá að það gefur hljómsveitinni visst svigrúm í verkefnavali.