Frá stofnun Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands hefur hljómsveitin flutt fjórar til fimm efnisskrár að meðaltali á hverju ári og leikið nánast allar tegundir klassískrar tónlistar. Haldnir hafa verið tónleikar víða um land þó aðaltónleikastaður hljómsveitarinnar sé Akureyri.
Þegar sett er saman efnisskrá fyrir tónleika hjá SN er að ýmsu að hyggja. Hljóðfæraleikarar eru ekki fastráðnir heldur er verkefnaráðið fyrir hverja tónleika. Mikilvægt er því þegar sett er saman efnisskrá að verk sem valin eru saman á tónleika hafi líka hljóðfæraskipan þannig að hljóðfærakostur nýtist sem best. Samhliða því þarf að gæta þess að efnisskráin verði heildstæð. Í gegnum árin hefur verið afar mikil fjölbreytni í verkefnavali og hljómsveitin hefur leikið verk frá flestum tímabilum tónlistarsögunnar, allt frá barrok til nútímatónlistar.
Á sextán fyrstu starfsárum hljómsveitarinnar hafa verið leiknir 108 almennir tónleikar með 89 efnisskrám, nítján tónleikar hafa verið endurteknir. Til að leika sér örlítið með tölur má nefna að SN hefur á þessum árum leikið tuttugu sinfóníur eftir átta tónskáld. Þá hafa 40 einleikarar og 57 einsöngvarar komið fram með hljómsveitinni. Samtals hefur SN leikið verk eftir 131 tónskáld og titlar verka sem leikin hafa verið eru 384 talsins.
Tónleikaskrá er gefin út fyrir hverja tónleika. Þar er að finna upplýsingar um efnisskrá tónleikanna og flytjendur. Einnig er skrifað um tónskáldin og verkin sem leikin eru hverju sinni. Þeir sem hafa skrifað í efnisskrárnar eru Sigurjón Halldórsson, Marek Podhajski, Margrét Björgvinsdóttir, Daníel Þorsteinsson, Gunnar Egilsson, Ingveldur G. Ólafsdóttir og Ívar Aðalsteinsson.
Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands hafa verið hljóðritaðir frá árinu 2000 til eignar í heimildasafni hljómsveitarinnar. Um hljóðritanir fyrir SN hafa Karl Petersen, Kristján Edelstein og Kjartan Ólafsson að mestu leyti séð.
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur haldið úti vefsíðu frá haustinu 1999. Um vefsíðuna hafa séð þeir Helgi Vilberg (1999-2001) Zbigniew Zuchowich (2002-2005) og Ásgeir Úlfarsson (frá 2006). Frances McQuin hefur séð um að þýða vefsíðuna á ensku.