Tónverk samin fyrir SN

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands (SN) hefur fengið íslensk tónskáld til liðs við sig til að semja tónverk fyrir hljómsveitina, alls átta verk.

Strax á fyrsta starfsári SN var Haukur Tómasson fenginn til að semja fyrir hljómsveitina. Tónverkið nefnist Árhringur og var frumflutt á tónleikum í apríl 1994.

Í febrúar 1995, á Myrkum músíkdögum, frumflutti hljómsveitin verk eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson, Næturregn, sem hann samdi að beiðni SN í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.

Snorri Sigfús Birgisson var fenginn til að semja píanókonsert sem hann frumflutti með hljómsveitinni í janúar 1997.

Draumar og dansar nefnist víólukonsert sem Oliver Kentish samdi fyrir SN og var frumfluttur í mars 2003. Einleikari á víólu var Guðmundur Kristmundsson.

Fjögur verk hafa verið síðan verið samin fyrir hljómsveitina þar sem sérstaklega er hugað að tónlist fyrir börn.

Á aðventutónleikum 2001 var frumflutt Rigning í himnaríki eftir John Speight við sögu eftir Hjörleif Hjartarson, sögumaður var Arnór Benónýson.

Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi tónverk fyrir aðventutónleika 2004, Stjarnan mín og stjarnan þín við sögu eftir Jón Guðmundsson. Sögumaður á tónleikunum var Þráinn Karlsson.

Haustið 2001 var Tryggvi M. Baldvinsson fenginn til að semja tónverk við smásögu eftir Sveinbjörn I. Baldvinsson. Nefndist verkið Lykillinn og var flutt á skólatónleikum starfsárið 2001-2002, sögumaður var Skúli Gautason. Verkið var síðan flutt aftur starfsárið 2008-2009 og var Hannes Örn Blandon þá sögumaður.

Haustið 2005 var síðan flutt á skólatónleikum verk eftir Snorra Sigfús Birgisson við söguna Stúlkan í turninum eftir Jónas Hallgrímsson. Snorri samdi verkið að beiðni SN og var hann jafnframt sögumaður á tónleikum. Í framhaldi af skólatónleikum var verkið síðan tekið upp og gefið út á geisladisk.